You are here

Almennt um hugverkarétt

Hugverkaréttur er réttur sem tekur til óáþreifanlegra verðmæta og auðkenna. Ákvæði laga á sviði hugverkaréttar (höfundalaga, vörumerkjalaga, hönnunarlaga og einkaleyfalaga) fela í sér einkarétt eiganda þessara réttinda á að nota umrædd hugverk í atvinnuskyni. Lögin fela í sér að aðrir en eigendur slíkra réttinda mega ekki nota umrædd réttindi heimildarlaust í atvinnuskyni. Höfundur, samkvæmt höfundalögum, hefur einkarétt á því að birta sitt verk í þeim tilgangi að gera það aðgengilegt almenningi, til dæmis með sölu. Þá hefur uppfinningamaður í skilningi einkaleyfalaga einkarétt á að hagnýta uppfinningu sína í atvinnuskyni. Eigandi að vörumerki hefur að sama skapi einkarétt til að nota vörumerki sitt í atvinnuskyni.

Brot gegn hugverkarétti á sér stað þegar annar en sá sem hefur heimild til þess lögum samkvæmt, notar á ólögmætan hátt hin vernduðu hugverk án samþykkis rétthafa. Algeng brot gegn hugverkarétti eru til dæmis ólögmætar eftirgerðir (sjóræningjaútgáfur) og dreifing á tónlist og kvikmyndum. Þá má nefna ólögmætar merkingar á fatnaði og lyfjum með vernduðum vörumerkjum, þ.e. eftirlíkingar.

Brot gegn ákvæðum sérlaga á sviði hugverkaréttar geta haft í för með sér refsingu, skaðabætur og sektir. Almennt er miðað við að hinum brotlega sé gert að greiða endurgjald fyrir hagnýtingu þessara réttinda og bætur fyrir það tjón sem hlýst af. Eigendur hugverkaréttinda geta einnig krafist lögbanns í samræmi við ákvæði laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl..

Falsanir og eftirlíkingar eru vaxandi vandi sem getur af ýmsum ástæðum falið í sér ógnun við hagkerfi þjóða. Framboð af fölsuðum varningi og annarri “sjóræningjaútgáfu” á netinu er mikið og því auðvelt að nálgast slíkan varning.

Falsanir og “sjóræningjaútgáfur" hafa það yfirleitt í för með sér að reynt sé að blekkja neytendur af ásetningi. Er þá átt við að kaupandanum séu gefnar rangar upplýsingar eða væntingar um gæði og eiginleika vörunnar, sér í lagi ef um er að ræða fölsun eða eftirlíkingu af þekktu vörumerki. Falsanir og eftirlíkingar eru framleiddar án prófana frá viðurkenndum eftirlitsaðilum og fylgja ekki lágmarksgæðakröfum. Þegar neytandi kaupir falsaða vöru eða eftirlíkingar er hætt við að hann njóti ekki góðs af ábyrgð eða annarri þjónustu ef varan er gölluð. Afleiðingar falsana og eftirlíkinga geta einnig verið mjög alvarlegar og haft í för með sér og ógnun við heilsu og líf manna þegar um lyf er að ræða. Þá getur öryggi manna einnig stafað ógn af eftirlíkingum af leikföngum og eins varahlutum í bifreiðar og flugvélar. Það er því sérstaklega mikilvægt að tryggja það að neytendur séu meðvitaðir um möguleikann á eftirlíkingum og þeirri hættu sem af þeim getur stafað.

Theme by Danetsoft and Danang Probo Sayekti inspired by Maksimer