You are here

Vörumerki, hönnunarvernd og höfundarréttur

Mikið magn af fölsuðum vörum er gert upptækt í nágrannalöndum okkar á ári hverju. Hér á landi hafa falsaðar vörur einnig verið stöðvaðar, bæði í tollafgreiðslu og í verslunum. Með falsaðri vöru er átt við vöru sem ekki er framleidd af þeim gefið er til kynna að hún stafi frá eða vöru sem er eftirlíking af vöru sem hefur áunnið sér viðskiptavild eða er þekkt fyrir tiltekin gæði.

Með því að setja falsaða vöru í umferð er brotið gegn hugverkaréttindum af ýmsum toga. Slíkt athæfi getur til dæmis brotið gegn vörumerkjarétti, hönnunarrétti eða höfundarrétti, en færri vita að Evrópa er kjörmarkaður fyrir m.a. fölsuð lyf, bílavarahluti, leikföng, matvæli, snyrtivörur, rafhlöður og tóbak. Auk þess gilda ýmis lög um öryggi vöru og rík skylda hvílir á framleiðendum, innflytjendum og dreifingaraðilum að markaðssetja aðeins vörur sem ekki ógna lífi eða heilsu neytenda. Öryggi neytenda getur því verið ógnað ef falsaðar vörur sem eiga að uppfylla slíkar sérkröfur í lögum komast í umferð. Verði neytendur fyrir tjóni getur slíkt athæfi verið bæði refsivert og skaðbótaskylt.

VÖRUMERKI

Vörumerki eru notuð til þess að merkja vörur og þjónustu. Þau eru hvers kyns sýnileg tákn sem notuð eru í atvinnustarfsemi til að greina vörur og þjónustu eins aðila frá vörum og þjónustu annarra. Þá eru vörumerki oft notuð sem firmaheiti og lén. Með vörumerkjaskráningu hjá Einkaleyfastofunni má, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum, vernda auðkenni vöru og þjónustu, þ.e. vörumerki, til 10 ára í senn og með reglulegri endurnýjun vörumerkisins eins lengi og eigandi merkisins óskar.

Réttur sá sem settur er í vörumerkjalögum (sjá lög um vörumerki nr. 45/1997 með síðari breytingum) gefur eiganda vörumerkis einkarétt á að nota merkið hér á landi og getur hann þá bannað öðrum að nota í atvinnustarfsemi merki sem eru eins eða lík vörumerki hans. Þá er mikilvægt að hafa merki skráð ef verja þarf það fyrir ágangi annarra. Skráning á orðmerki hjá Einkaleyfastofunni er eina skráningin á auðkenni sem veitir einkarétt á notkun orðs, með þeim fyrirvara að sá einkaréttur nái eingöngu til þeirrar tilteknu vöru og/eða þjónustu sem merkinu er ætlað að auðkenna.

Neysluvarningur af ýmsum toga er boðinn til kaups undir þekktum vörumerkjum án þess að rétthafar vörumerkjanna hafi gefið til þess leyfi. Dæmi um slíkan varning er varningur sem stundum er nefndur lúxusvarningur eins og fatnaður, handtöskur, sólgleraugu o.fl. en einnig er um að ræða ýmsan varning til daglegra nota eins og rafhlöður, tannkrem o.þ.h.

HÖNNUNARVERND

Frá sjónarhóli hugverkaréttar er með hugtakinu hönnun átt við útlit vöru eða hluta vöru sem ræðst af einstökum þáttum eða skreytingu hennar. Útlit vörunnar ræðst fyrst og fremst af formi hennar þó aðrir þættir geti einnig haft áhrif, svo sem litur og efni.

Hönnun afmarkast af því útliti vöru sem hægt er að nema sjónrænt. Þó svo að vara hafi tæknilega virkni er það aðeins útlit hennar sem fæst verndað með hönnunarvernd. Vörurnar geta verið bæði handunnar og fjöldaframleiddar. Dæmi um nokkrar vörur sem notið geta hönnunarverndar eru húsgögn, fatnaður, umbúðir, vélbúnaður, verkfæri, matvara og skartgripir. Hönnun þarf ekki að vera í þrívíðu formi til að njóta verndar. Hún getur verið i tvívídd, svo sem skjámynd á tölvu, grafísk tákn og skreyting á vöru, t.d. veggfóðri. Því frumlegri og nýstárlegri sem hönnunin er þeim mun sterkari er verndin.

Hönnun þarf að vera ný og sérstæð þegar umsóknin er lögð inn. Skráning hönnunar veitir eiganda skráningarinnar einkarétt til að hagnýta hana og rétt til að banna öðrum að hagnýta sér viðkomandi hönnun.

Umsókn lögð inn hjá Einkaleyfastofunni gildir á Íslandi, en einnig er hægt að sækja um alþjóðlega skráningu hönnunar (Haag-kerfið) þar sem m.a. er hægt að tilnefna Evrópusambandið.

Þegar falsaður varningur er settur í umferð er oft um að ræða brot á hönnunarrétti. Það á við um húsgögn, lampa og ýmsa aðra nytjalistmuni.

HÖFUNDARÉTTUR

Ekki þarf að sækja um skráningu af neinum toga til að höfundaréttarvernd stofnist. Til listaverka telst m.a. nytjalist, svo sem húsgögn, lampar og búsáhöld. Skilyrði fyrir því að slík vernd stofnist er að höfundur hafi innt af hendi sjálfstætt framlag við hönnun verksins. Rétthafi höfundaréttar hefur einkarétt til að gera eintök af slíku verki og til að dreifa eintökum af því. Höfundaréttur helst í gildi uns liðin eru 70 ár frá næstu áramótum eftir lát höfundar.

Þegar falsaður varningur er settur í umferð er oft um að ræða að varningurinn er eftirlíking af vernduðu hugverki en slíkt felur í sér brot á höfundarrétti. Í þessum tilfellum er varningurinn sjaldnast merktur með því vörumerki sem hin upprunarlega vara er seld undir. Þetta á við um húsgögn, lampa og ýmsa aðra nytjalistmuni. Hér á landi hafa gengið dómar um höfundaréttarvernd nytjalistar og viðurlög við brotum á þeim réttindum.

Theme by Danetsoft and Danang Probo Sayekti inspired by Maksimer