You are here

Útgáfa tónlistar

Þegar tónlist er gefin út og fjölfölduð á föstu formi eins og CD, LP, DVD o.fl. þarf útgefandi að greiða höfundagjöld fyrir leyfi til þess. Tónlistin er eign höfundanna og hana má ekki gefa út og fjölfalda án leyfis. STEF/NCB sér um að veit leyfið fyrir hönd höfundanna (þó þarf alltaf leyfi beint frá höfundi þegar um frumútgáfu tónlistar er að ræða).

Nordic Copyright Bureau (NCB) er félag sem ekki er rekið í hagnaðarskyni (non-profit) og er í eigu norrænna höfundaréttar-samtaka á tónlistarsviði – það er að segja STEFs (Ísland), KODA (Danmörk), STIM (Svíþjóð), TEOSTO (Finnland) og TONO (Noregur). Einnig er NCB í mjög nánu samstarfi við höfundaréttarsamtökin í Eystrasaltsríkjunum: AKKA/LAA (Lettland), EAÜ (Eistland) og LATGA-A (Litháen). STEF er útibú NCB á Íslandi.

Með umboði frá rétthöfum til réttindagæslu getur NCB miðlað leyfi rétthafa til að setja tónlist þeirra t.d. á geisladiska, í kvikmynd eða á myndband gegn greiðslu frá útgefandanum fyrir hljóðsetningu og fjölföldun. Þetta gerir bæði höfundum og notendum tónlistarinnar auðveldara um vik en ella.

Flestir þeirra sem stunda hljómplötuútgáfu að staðaldri og ná ákveðinni ársveltu hafa gert fastan samning við NCB sem gerir þeim kleift að gera upp söluna tvisvar á ári og greiða höfundagjöld skv. því.

Þeir sem ekki hafa fastan samning þurfa að sækja um og greiða af framleiddum eintökum fyrirfram, sbr. Umsókn um leyfi til útgáfu geisladiska og Skilmála fyrir veitingu leyfis. Greiðsla jafngildir leyfi og STEF/NCB sér um að senda höfundagreiðslur áfram til rétthafa tónlistarinnar á diskunum. Gjaldið miðast við fjölda framleiddra eintaka og skv. gjaldskrá NCB í janúar 2011 þarf að greiða 9,009% af heildsöluverði pr. disk og 7,4% af verði pr. disk í beinni sölu. Heimilt er að setja 15% af upplaginu í kynningar og það er innheimt á lágmarksverði sem er 57,04 kr. pr. disk. Þegar diskurinn er kominn út þarf að senda eitt eintak til STEFs og þrjú eintök á Landsbókasafnið sbr. lög um skylduskil til safna (nr. 20/2002). ISRC kóða er hægt að nálgast hjá SFH (Sambandi Flytjenda og Hljómplötuframleiðenda) (http://www.isrc.is/).

Til að standa straum af kostnaði NCB við réttindagæsluna dregst ákveðin þóknun frá innheimtum höfundagreiðslum áður en þær eru sendar rétthöfum. Ef í ljós kemur að ekki þarf að innheimta fyrir neitt, kostar leyfið ekkert. Þeir sem eru að gefa út eigin lög og texta í fyrsta skipti geta sótt um undanþágu en þurfa engu að síður að skila inn umsókn.

Þau hljóðritunar- og fjölföldunarréttindi sem NCB sér um fyrir rétthafana kallast einu nafni upptökuréttindi – oft einnig kölluð mekanísk réttindi.
Frekari upplýsingar má nálgast á heimasíðu STEFs: http://www.stef.is/

Theme by Danetsoft and Danang Probo Sayekti inspired by Maksimer