You are here

Um tónlist

Tónlist á netinu

Internetið tengir saman milljónir tölva um allan heim með sameiginlegum staðli fyrir tölvusendingar. Það er hraðbraut stafrænna upplýsinga, t.d. texta, mynda og hljóðs, og aðgengilegt áskrifendum um allan heim.

Það á enginn sérstakur internetið. Í raun má kalla það almenningseign. Allir geta sent frá sér og tekið á móti upplýsingum um netið, og því halda margir að þeir hafi fullkomlega frjálsar hendur til að gera það sem þeim sýnist. En þannig er því ekki varið. Ekki heldur þegar um er að ræða tónlist á netinu.
Þú mátt hlusta og afrita til einkanota

Ef þú ætlar að gera eitthvað annað og meira en að kaupa geisladisk í búð hlusta á tónlistina og afrita fyrir sjálfan þig og fjölskyldu þína, þarftu að hafa til þess leyfi frá rétthöfunum. Skráarskipti á netinu er ein leið dreifingar á tónlist og til þess þarf að leita heimildar rétthafa. Að vera rétthafi þýðir að viðkomandi á einkarétt á því að gera afrit af tónlistinni, nema til einkanota, og gera hana aðgengilega öðrum. Engir aðrir mega því ráðstafa tónlist, nema rétthafarnir hafi gefið til þess leyfi. Um þetta er kveðið á í höfundalögum.

Rétthafar tónlistar - hverjir eru það?

Rétthafar að tónlist bæði á netinu og annars staðar eru þeir sem skapa hana (höfundarnir), þeir sem flytja hana (flytjendurnir), og útgefendur (hljómplötuframleiðendur).

Höfundar

Skapandi listamenn á tónlistarsviðinu eru þeir sem semja tónlist og texta. Þessi tónskáld og textahöfundar eru höfundar tónlistarinnar og eiga því réttinn að verkum sínum. Réttur til að leika tónlist opinberlega og hljóðrita þau er falinn samtökunum STEF og NCB.

Flytjendur

Túlkandi listamenn á tónlistarsviðinu eru þeir sem flytja tónlistina. Það geta verið söngvarar, hljóðfæraleikarar, hljómsveitir o.s.frv. Túlkandi listamenn eiga réttinn á flutningi sínum. Fulltrúar þeirra eru meðal annar FÍH, Félag íslenskra hljómlistarmanna, FÍT, Félag íslenskra tónlistarmanna og FÍL, Félag íslenskra leikara.

Hljómplötuframleiðendur

Hljómplötuframleiðendur eru þeir sem standa að útgáfu á tónlistinni t.d. á geislaplötum eða á netinu. Hljómplötuframleiðendurnir eiga réttinn á upptökunni og samtök þeirra eru kölluð FHF, Félag hljómplötuframleiðenda.

Að hafa afkomu sína af tónlist og réttindum

Skapandi og túlkandi listamenn, svo og hljómplötuframleiðendur, hafa framfærslu sína af tónlist að svo miklu marki sem það er hægt. Þar skiptir meginmáli að réttindi þeirra séu virt. Ekki dettur fólki t.d. í hug að það geti flutt inn í sumarbústað sem það ekki á án leyfis.Fyrst spyr maður eigandann um leyfi. Stundum fæst það, stundum ekki, og oft þarf að borga leigu. Nákvæmlega það sama gildir um tónlistina. Langi þig til að nota tónlist á netinu, verður þú fyrst að fá til þess leyfi og oftast þarf líka að greiða fyrir afnotin.

Hver er fulltrúi rétthafanna?

Fyrir skapandi listamenn/höfunda
STEF(Samband tónskálda og eigenda flutningsréttar) eru samtök sem fyrir hönd tónskálda, textahöfunda og forleggjara fara með íslensk og alþjóðleg höfundarréttindi vegna opinbers flutning á tónlist.

NCB (Nordisk Copyright Bureau) fer með réttindi sem felast í að hljóðrita, fjölfalda og dreifa tónverkum á geislaplötum, CD-Rom og öðrum tónmiðlum, þar með talið að setja inn eða flytja yfir frá tölvu (uploading/downloading). NCB er samtök sem rekin eru sameiginlega af öllum norrænu stefjunum, þ.á m. STEFi.

Í stórum dráttum fara STEF og NCB í sameiningu með réttindavörslu allra íslenskra og erlendra verka. Allir sem leita eftir því og uppfylla vissa skilmála fá leyfi STEFs og NCB til að nota verkaskrá STEFs og NCB á netinu.

Fyrir túlkandi listamenn/flytjendur

Réttindagæsla fyrir flytjendur er m.a. í höndum FÍH, Félags íslenskra hljómlistarmanna, FÍT, Félags íslenskra tónlistarmanna og FÍL, Félags íslenskra leikara. Leyfi til að nota tónlist á internetinu er veitt af FÍH fyrir hönd félaga í samtökunum. Stundum þarf að leita til einstakra flytjenda eftir leyfi. Almennt er hægt að fullyrða að því umfangsminni sem afnotin af tónlistin eiga að vera, því auðveldara er að fá leyfið. Menn snúa sér til viðkomandi félags með tilliti til þess hvers konar tónlist þeir ætla að nota.

Fyrir hljómplötuframleiðendur

FHH (Félag hljómplötuframleiðenda) er fulltrúi innlendra útgefenda svo og erlendra á grundvelli aðildar sinnar og samstarfs við IFPI (International Federation of the Phonographic Industry). Einstakir útgefendur/hljómplötuframleiðendur fara sjálfir með réttindi sín og ákveða skilmála fyrir leyfum til að nota tónlist þá sem þeir eiga útgáfuréttinn á. Sumir útgefendur gefa yfirleitt aldrei leyfi á meðan aðrir veita fúslega leyfi.

Fyrir hljómplötuframleiðendur og flytjendur

Ef þú ert í vafa um hvaða flytjendur og/eða hljómplötuframleiðendur eiga í hlut, sést það yfirleitt á sjálfri geislaplötunni eða innlegginu. Sértu í vafa um hvaða flytjendur eða plötufyrirtæki þarf að biðja um leyfi getur þú snúið þér til SFH, Sambands flytjenda og hljómplötuframleiðenda.
SFH er sameiginleg innheimtustofnun sem fyrir hönd útgefenda og flytjenda fer með rétt til að innheimta fyrir opinberan flutning á tónlist sem gefin hefur verið út á geislaplötum og öðrum tónmiðlum. Heimasíða SFH er www.sfh.is

Theme by Danetsoft and Danang Probo Sayekti inspired by Maksimer